Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 4/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 4/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, hafði samband við Vinnumálastofnun í tölvupósti 14. desember 2012, um hugsanlegan rétt sinn til desemberuppbótar. Í tölvupósti sama dag, frá Vinnumálastofnun til kæranda, kemur fram að kærandi eigi ekki tilkall til desemberuppbótar. Kærandi hefur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 27. desember 2012. Kærandi krefst þess að hann fái greiddan þann mismun sem er á fjárhæð desemberuppbótar frá vinnuveitanda kæranda og þeirrar sem greidd er úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 1. janúar 2010 og fékk þær greiddar þar til hann hóf störf hjá B hf. 15. október 2012. Kærandi staðfesti ekki atvinnuleysi sitt í nóvember 2012.

Kærandi fékk ekki greidda desemberuppbót á grundvelli reglugerðar um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, nr. 975/2012, og var kæranda tilkynnt um það með tölvupósti Vinnumálastofnunar, 14. desember 2012, eftir fyrirspurn kæranda þess efnis í tölvupósti sama dag.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 27. desember 2012, að hann hafi fengið 8.080 kr. í desemberuppbót fráB hf. og mismunurinn á þeirri fjárhæð og fullri desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði séu 42.072 kr. Kærandi vísar til þess að með lögum nr. 103/2011, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, hafi verið lögfest heimild til handa ráðherra um að ákveða í reglugerð að fengnu samþykki ríkisstjórnar að greiddar séu sérstakar desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur í lok hvers árs að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Vísar kærandi til reglugerðar nr. 975/2012, um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá vísar kærandi í athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 103/2011 en þar komi fram um 3. gr. að miða skuli við þær reglur sem gildi almennt um desemberuppbætur samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni eftir því sem við geti átt. Kærandi kveðst greiða í stéttarfélagið Eflingu og vísar til þess að í grein 1.4.1 í kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins og Eflingar, Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis 22. júní 2011 og til 31. janúar 2014, komi fram að desemberuppbót fyrir árið 2012 skuli vera 50.500 kr. Fullt starfsár teljist í þessu sambandi vera 45 unnar vikur. Uppbótin skuli greiðast eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem hafi verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í tólf vikur á síðust tólf mánuðum. Kærandi kveðst hafa verið atvinnulaus í um 41 viku árið 2012.

Þá vísar kærandi til þess að í umfjöllun um 3. gr. laga nr. 103/2011 sé einnig tekið fram að markmiðið sé meðal annars að tryggja að einstaklingar geti ekki fengið greiddar fullar desemberuppbætur bæði úr Atvinnuleysistryggingasjóði og frá vinnuveitanda. Orðrétt segi í umfjölluninni: „Hins vegar kann að vera að atvinnuleitandi fái greiddar hlutfallslegar desemberuppbætur bæði úr Atvinnuleysistryggingasjóði og frá vinnuveitanda í samræmi við þau tímabil sem hlutaðeigandi var í starfi og í atvinnuleit á sama ári.“ Kærandi telur eðlilegt og sanngjarnt að fá hlutfallslegar atvinnuleysisbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Markmið laga nr. 103/2011 sé að jafna stöðu þeirra sem voru atvinnulausir gagnvart þeim sem voru í fullri vinnu. Stærsta hluta ársins 2012 hafi kærandi verið atvinnulaus.

Kærandi vísar til jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og telur að verið sé að mismuna atvinnulausum einstaklingum eftir því hvenær árs þeir séu atvinnulausir með reglugerð nr. 975/2012.

  

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. janúar 2013, kemur fram að kæranda hafi verið synjað um greiðslu desemberuppbótar í desember 2012 á grundvelli reglugerðar nr. 975/2012, um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sbr. einnig 3. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Ljóst sé samkvæmt ákvæðinu að ráðherra sé fengin víðtæk heimild til að ákveða með reglugerð að greiða sérstakar desemberuppbætur. Um heimildarákvæði sé að ræða og því ekki almenn skylda til að greiða desemberuppbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Reglugerð nr. 975/2012 hafi verið undirrituð af ráðherra 16. nóvember 2012, birt 19. nóvember 2012 og sé nær samhljóma reglugerð nr. 1064/2011 sem birt hafi verið 21. desember 2011. Eitt af skilyrðum reglugerðar nr. 975/2012 sé að viðkomandi atvinnuleitandi hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi staðfest atvinnuleit sína síðast 21. september 2012 enda hafi hann hafið störf hjá B 15. október 2012. Hann hafi því ekki verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun þegar reglugerð nr. 975/2012 hafi verið gefin út og þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrðin sem sett séu á grundvelli hennar sé stofnuninni ekki heimilt að greiða kæranda desemberuppbót á grundvelli hennar.

Vinnumálastofnun vekur athygli á að stofnuninni sé ekki heimilt að greiða mismun á þeim desemberuppbótum sem atvinnuleitandi kann síðar að eiga rétt til á almennum vinnumarkaði. Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um frádrátt vegna tekna. Samkvæmt ákvæðinu skuli skerðingin eingöngu taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvörðun ráðherra. Vinnumálastofnun telur að ekki sé unnt að verða við kröfum kæranda þó svo fallist væri á rétt hans til greiðslu desemberuppbótar þvert á skilyrði reglugerðar nr. 975/2012.

Varðandi það að kærandi telji að reglugerð nr. 975/2012 brjóti gegn stjórnarskrár lýðveldisins, greinir Vinnumálastofnun frá því að hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og úrskurðir nefndarinnar feli í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. og 4. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 6. mgr. 12. gr. laganna sé tekið fram að um málsmeðferð hjá nefndinni fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga þegar lögum um atvinnuleysistryggingar sleppir. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga sé einskorðuð við stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu af lægra settum stjórnvöldum. Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segi að lögin skuli einungis gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um réttindi og skyldur manna. Þá sé sérstaklega tekið fram að lögin gilda ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla. Stjórnsýslulög og þar með kæruheimild skv. 26. gr. stjórnsýslulaga taki þannig einungis til ákvarðana sem varði ákveðna einstaklinga eða lögaðila, einn eða fleiri. Af framangreindu telur Vinnumálastofnun ljóst að setning reglugerðar nr. 975/2012 teljist ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og sæti því ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. janúar 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. 

 

2.
Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi eigi tilkall til mismunar á fjárhæð desemberuppbótar þeirrar er hann fékk greidda frá B hf. alls 8.080 kr. og fullri desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði alls 50.152 kr. 

Í 1. gr. reglugerðar nr. 975/2012, um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er fjallað um greiðslur desemberuppbóta í desember 2012. Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 og verið skráður á atvinnuleysisskrá í samtals tíu mánuði á árinu 2012 eigi rétt á desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði að fjárhæð 50.152 kr. enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma. Í ákvæðum 3. og 4. gr. reglugerðarinnar kemur jafnframt fram skilyrði um að atvinnuleitendur skuli hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2012 um þá sem áttu hlutfallslegan rétt á atvinnuleysisbótum. Í máli þessu er óumdeilt að kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2012.

Af hálfu kæranda er haldið fram að umrædd reglugerð fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins. Reglugerð nr. 975/2012 er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Í 3. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um desemberuppbætur og nánari skilyrði þeirra. Í 64. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er almenn heimild til handa ráðherra að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur eða reglugerðir sem settar eru með stoð í þeim kunni að fara í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem á slíku eru byggðar. Samkvæmt stjórnskipunarvenju er það regla íslensks réttar að dómstólar eigi úrlausn þess hvort lög eða reglugerðir sem settar eru með stoð í þeim teljist samþýðanleg ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna beiðni kæranda um að fá greiddar desemberuppbætur staðfest.


Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun í máli A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum